Guðni Elísson. Guðni Elísson dósent, skrifar um efnahagsmál: \"Bretar vilja firra sig allri ábyrgð í þessari deilu. Þeir telja sig geta neytt aflsmunar og kúgað þetta fé út úr íslenskum stjórnvöldum sem eiga í vök að verjast.\"

 

Í FRÉTT sem birtist á vef Ríkisútvarpsins sunnudaginn 12. október kemur fram að 108 sveitarfélög í Bretlandi eigi „tæpan milljarð punda inni í íslenskum bönkum“, en samkvæmt fréttinni munu fulltrúar þessara sveitarfélaga „eiga viðræður við sendiherra Íslands í vikunni um endurheimt fjárins“. Samkvæmt BBC hafa sveitarstjórnir „krafist þess að skattfé almennings gangi fyrir þegar samið verði við stjórnvöld á Íslandi um endurgreiðslu fjár“, en fall „íslensku bankanna hefur sett þessi sveitarfélög í mikinn vanda“. Gríðarlega mikilvægt er að íslenska ríkið beri ábyrgð á þeim hluta innlána sem lög mæla fyrir um og standi þannig við lagalegar skuldbindingar sínar. En að sama skapi hlýtur það að vera krafa íslenskra skattgreiðenda að ríkisstjórnin skuldbindi ekki þjóðina til þess að greiða skuldir sem hún stofnaði ekki til og ber hvorki lagalega né siðferðislega ábyrgð á. Þegar Landsbanki Íslands komst í greiðsluþrot var hann banki í einkaeigu og nægar byrðar hafa verið lagðar á þjóðina þótt hún gangist ekki í frekari skuldbindingar fyrir fyrrverandi bankaeigendur sem misnotuðu með svo hrapallegum hætti glufu sem aldrei hefði átt að vera í íslensku (og raunar einnig bresku) fjármálaeftirliti.

 

Bretar vilja firra sig allri ábyrgð í þessari deilu. Þeir telja sig geta neytt aflsmunar og kúgað þetta fé út úr íslenskum stjórnvöldum sem eiga í vök að verjast. Þeir færu öðruvísi að ef um stórþjóð væri að ræða. Það má heldur ekki firra breska ráðamenn allri ábyrgð á íslensku bönkunum í Bretlandi. Breska blaðið Telegraph sagði frá því laugardaginn 11. október að ríkisstjórn Bretlands hafi verið vöruð við að íslenskir bankar kynnu að hrynja í júlí, en hún hafi ákveðið „að hunsa viðvörunina“. Og á fréttastöðinni Sky News sama dag kemur fram að breskar sveitarstjórnir voru ítrekað varaðar við íslensku bönkunum en létu þau orð sem vind um eyrun þjóta. Í frétt á Eyjunni, sem tekur málið ágætlega saman, kemur fram að breska fyrirtækið Fitch, sem sér um lánshæfismat, „mun hafa varað við hættunni á fjárfestingum í íslensku bönkunum, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur mörgum sinnum“.

 

Með þessum orðum vil ég ekki gera lítið úr nauð þeirra sveitarfélaga, spítala og góðgerðarstofnana sem lögðu fé sitt inn á reikning íslenskra banka. Staða þeirra er í sumum tilvikum átakanleg. En þessir innistæðueigendur hafa verið sviknir af þeim sem ábyrgð bera á rekstri Landsbankans, ekki af íslensku þjóðinni.

Íslensk og bresk stjórnvöld eiga að vísa þessum kröfuhöfum rétta leið og hugsanlega eiga þau að vera þeim innan handar þegar kemur að því að innheimta skuldirnar. Það vill svo til að stærstu fyrrverandi eigendur Landsbankans eiga umtalsverðar eignir á Bretlandseyjum og það hlýtur að vera siðferðileg skylda þessara manna að láta af hendi nokkra tugi milljarða og bæta Bretum þannig að einhverju leyti tjónið. Nóg munu þeir eiga samt.

 

Íslenska þjóðin á ekki að gangast í óþarfa ábyrgðir vegna fáránlegrar fjármálastefnu íslenskra athafnamanna í útlöndum. Þeir ráðamenn sem slíkt gera fyrir hönd þjóðarinnar eiga ekki erindi á Alþingi.

 

Höfundur er dósent við HÍ.